Örlagarík eyrnabólga

Hvað er hómópatía?

 

Vitur maður ætti að huga að því að heilsan er æðsta blessun mannsins, og læra hvernig hann getur með hugsun sinni haft gagn af sjúkdómum sínum.
Hippocrates 460-400 B.C.

Örlagarík eyrnabólga
Þegar dóttir mín var hálfs árs fékk hún í eyrun eins og svo mörg börn hér á landi. Hún fékk pensilínskammt í hverjum mánuði og í hvert sinn leið mér eins og ég væri að eitra fyrir henni en kunni engin önnur ráð.  Ég reyndi ýmislegt og sumt virkaði ágætlega um tíma en á endanum fékk hún alltaf aftur í eyrun.
Þegar hún var eins árs sá ég auglýst námskeið í hómópatíu og hvernig hún  gæti m.a. hjálpað börnum með eyrnabólgur. Ég skráði mig á námskeiðið og komst fljótlega að því að hómópatía er heilsteypt vísindagrein sem byggir á einföldum kenningum sem virka. Ég heillaðist af því hvernig hómópatían fléttar allt saman í eina heild en bútar okkur ekki niður í marga hluta eins og vélar. Ekki skaðaði heldur að sjá hversu fljótt dóttir mín tók við sér með aðferðum hómópatíunnar.

Árangurinn
Hómópatinn (smáskammtalæknirinn) sem hélt námskeiðið er írskur og heitir Declan Hammond. Ég fór til hans með stelpuna mína sem hafði verið með þurran hósta á nóttunni í tvær-þrjár vikur. Hún var líka dálítið lítil í sér og vildi helst hanga í pilsfaldinum á mér eða sitja í fanginu á mér. Árangurinn lét ekki á sér standa. Nóttina eftir var hún hætt að hósta.  Og hún varð öll miklu léttari og ánægðari með lífið næstu daga.  Öðlaðist nýtt sjálfstæði og rölti af stað að skoða heiminn.  Ég fann mikinn mun á henni.  Nokkrum vikum seinna fékk hún þó aftur í eyrun.  Ég hringdi strax í Declan, sem var komin til Írlands og lýsti einkennunum fyrir honum. Hann sagði mér hvað ég ætti að gefa henni og ég útvegaði mér það. Ég fékk lækninn minn til að fylgjast með henni og fjórum dögum síðar var hún orðin góð í eyrunum og hefur ekki fengið í eyrun síðan.  Það væri auðvitað hægt að halda því fram að hún hafi bara verið vaxin upp úr eyrnabólgunum eins og mörg börn gera um eins árs aldur. En síðan þá hef ég séð tugi barna með krónískar eyrnabólgur sem hafa jafnað sig á nokkrum dögum eftir svona meðferð.  Sum hafa lagast að fullu eftir eina meðferð en flest þurfa þó lengri tíma.  Stundum getur verið erfitt að finna hvað það er sem hentar hverju barni.

Margir erlendir læknar nota hómópatíu
Ég starfaði sem au-pair í Frakklandi fyrir þrettán árum og tók þá fljótlega eftir því að flestar mömmur þekktu mun á Chamomillu og Pulsatillu og gátu nýtt sér hómópatíu fyrir börnin sín og nánustu ættingja.  Þar voru hómópatísk apótek mjög víða og bækur á mörgum heimilum sem hægt var að fletta upp í. Seinna komst ég að því að þriðjungur frakka notar hómópatískar remedíur og 32% franskra lækna nota þær til lækninga. Fimmti hver þýskur læknir beitir hómópatíu; 41% breskra lækna senda sjúklinga sína til hómópata og 45 % hollenskra lækna telja að hómópatía geri gagn.

Heildræn meðferð
Hómópatía er heildræn meðferð þar sem markmiðið er að hvetja líkamann til að lækna sig sjálfur. Líkaminn er alltaf að gera kraftaverk; vinna á alls kyns bakteríum og vírusum og finna jafnvægið í óstöðugum heimi. Þegar við veikjumst eru sjúkdómseinkennin þrátt fyrir allt sýnileg merki um tilraun líkamans til að koma aftur á jafnvægi.  Ef við bælum þessi einkenni þá erum við ekki að hjálpa líkamanum að lækna sig heldur að vinna á móti honum.  Og þar að auki erum við að slökkva á ljósinu í mælaborðinu – eina sýnilega merkinu sem við höfum um að eitthvað sé að.  Þannig meðferð getur aldrei virkað nema tímabundið.  Með því að vinna á móti heilbrigðu svari líkamans erum við að draga úr orku hans í stað þess að auka hana. Til að líkaminn geti haldið heilbrigði sínu þarf hann fulla orku.

Hvað er hómópatía?
Hómópatía byggir á einföldum sannleika; kenningunni um að líkt lækni líkt.  Nútíma vestrænar lækningar byggja að mestu leyti á því að lækna með andstæðum.  Það hefur verið vitað í mörg þúsund ár að hægt er að fara þessar tvær leiðir og til dæmis virðast Egyptar hafa stundað lækningaaðferðir sem byggja á líkum grunni.  Margir kokkar þekkja gamalt húsráð sem felst í því að sá sem brennir sig setur hendina aftur inn í eldinn.  Í stað þess að kæla hana – sem myndi vera að lækna með andstæðum. Ég hef sjálf sannreynt þetta.  Eftir að hafa brennt mig á ofninum, setti ég fingurinn eins nálægt hitanum og ég komst og hélt henni þar eins lengi og ég gat.  Sviðatilfinningin hvarf eftir stutta stund og engin blaðra kom.

Kaffi sem meðal
Annað dæmi um að lækna líkt með líku eru áhrifin af kaffi.  Ef við drekkum of mikið kaffi spennumst við upp og getum orðið andvaka. En kaffi eins og öll önnur efni getur læknað sömu einkenni og það veldur. Remedían Coffea sem er búin til úr kaffi er þannig m.a. notuð við svefnleysi.  Hún er líka notuð við ,,of mikilli gleði.” Skammtur af remedíunni Coffea myndi t.d. geta hjálpað barni, sem hefur farið í þrjú afmæli sama daginn og getur ekki náð sér niður, til að finna aftur jafnvægi og róa sig niður.

Smáskammtar
Eitt helsta aðalsmerki hómópatíunnar er að hún er hættulaus og henni fylgja engar aukaverkanir. Þetta stafar af því að efnin sem notuð eru – bæði úr jurta, dýra og steinaríki eru mjög útþynnt. Það er gert með því að þynna og hrista lausnina eftir ákveðnum reglum. Þrátt fyrir að lausnin verði svo mikið útþynnt að ekkert mælist af efninu í henni þá hefur það sýnt sig að remedían sem eftir stendur hefur samt sem áður áhrif. Til að gera þetta enn mótsagnakenndara þá hefur hún sterkari áhrif eftir því sem þynningin er meiri. Þessu eiga margir erfitt með að kyngja.  En það er svo margt í þessum heimi sem við getum ekki útskýrt.  Hvernig fer hákarlinn t.d. að því að finna lykt af einum blóðdropa af löngu færi í hafinu?  Hómópatía virkar og það eru til fjöldi rannsókna sem birst hafa í vísindatímaritum víða um heim sem sýna fram á virkni hennar.

Laukur við kvefi
Ein af þeim hómópatísku remedíum sem notaðar eru við kvefi og sömuleiðis við ofnæmisviðbrögðum er búin til úr lauk og heitir Allium Cepa. Allir vita hvaða áhrif það hefur að skera lauk. Það fer að renna úr augum og nefi – alveg eins og þegar við fáum kvef.  En Allium Cepa dugar ekki alltaf á kvef þó það leki úr nefi og augum. Aðeins ef önnur einkenni Allium Cepa eru til staðar. Og þetta gildir um allar remedíur.  Hver remedía eða efni hefur sín auðkenni, sum mjög óvenjuleg og einkenna kannski aðeins þetta eina efni.  En þetta er einmitt það sem gerir hómópatíuna bæði spennandi og oft erfiða. Það getur verið mjög vandasamt að greina á milli og finna þá remedíu sem hentar fyrir hvern og einn.

Viðkvæma blómið
Ég nefndi hér að ofan remedíurnar Chamillu og Pulsatillu.  Til að gefa skýrari mynd af því hvernig hómópatinn vinnur ætla ég að nota þær sem dæmi.  Hægt er að líkja hverri remedíu við mynd af manneskju. Dóttir mín fékk einmitt Pulsatillu við hóstanum sínum og barn sem þarf Pulsatillu er eins og ég lýsti henni; lítið í sér, dálítið grátgjarnt, sækir í fang foreldra sinna og vill ekki vera eitt. Pulsatilla er ein algengasta remedían við ýmsum algengum kvillum eins og kvefi, hósta, eyrnabólgum og niðurgangi.  Hún er líka mjög oft notuð fyrir ófrískar konur, í fæðingu og fyrir unglingsstúlkur – þegar hormónin geta farið að sveifla okkur í skapinu.  Annað sem einkennir m.a. þann sem þarf þessa remedíu er að hann finnur lítið fyrir þorsta, þolir illa hita og líður best úti í fersku lofti, þungur og feitur matur fer ekki vel í hann.

Reiðikast
Chamilla er líka algeng remedía við t.d. eyrnabólgum, tanntöku barna og sársauka í fæðingu. En myndin er allt öðru vísi.  Þarna er manneskja sem er í reiðikasti af því hún finnur mikið til.  Hún er ofurnæm fyrir sársaukanum og öskrar jafnvel af öllum kröftum.  Barnið biður um mjólk og hendir svo glasinu í gólfið.  Það vill ekki láta hugga sig eða kjassa en gæti liðið skár ef það er borið um gólf frekar harkalega.  Tími dagsins skiptir líka máli. Versti tíminn dagsins fyrir barn sem þarf Chamillu er klukkan níu að morgni og níu að kvöldi.  Ef barnið þarf Pulsatillu er versti tíminn við sólarupprás og sólarlag.  Chamilla og Pulsatilla eru tvær remedíur sem eru báðar mjög algengar við eyrnabólgum.  En börnin með eyrnabólguna eru gjörólík.

Grunngerðin
Börn og fullorðnir eru auk þess með ákveðna grunngerð.  Hún lýsir þeirra skapeinkennum og líkamsgerð.  Þessi grunngerð samsvarar ákveðinni remedíu og með því að gefa barninu hana þá er hægt að styrkja það og fyrirbyggja veikindi.  Til að átta sig á henni getur verið ágætt að leita til hómópata.  Ef þú þekkir grunngerð barnsins þíns geturðu lesið þér til og lært að skilja betur veikleika þess og hvernig það getur veikst. Þessi grunngerð segir til um hvernig okkur er eðlilegt að bregðast við lífinu.  Ef við verðum fyrir áfalli sem við eigum erfitt með að vinna úr þá færumst við aðeins frá okkur sjálfum – frá grunngerð okkar.  Vinna hómópatans er því stundum eins og að flysja lauk og komast nær kjarnanum.

Ekki nein endanleg töfralausn
Ég vil alls ekki gefa þá mynd að hómópatía sé  endanleg töfralausn á öllum okkar meinsemdum. Meðal við öllu.  Það er eins og segir hér að ofan oft erfitt að finna út hvað hver og einn þarf.  Það getur t.d. verið erfitt að greina börn því ung börn  geta ekki sagt okkur hvernig þeim líður.  Við getum bara reynt að lesa úr hegðun þeirra og það sem við sjáum af einkennum.  En á móti kemur að börn svara yfirleitt mjög fljótt meðferð ef remedían hittir í mark og því er fljótt hægt að sjá hvort eitthvað breytist.  Ef hún hins vegar gerir það ekki þá gerist ekki neitt.  Þá getur reynt á þolinmæðina meðan verið er að finna út úr því hvað barnið þarf.

Foreldrar geta sjálfir lært að beita hómópatíu
Hómópatía hefur reynst mörgu foreldrinu ómetanleg hjálp.  Hún getur verið mjög fljótvirk við mörgum kvillum sem koma upp. Kvillum eins og magakveisu hjá ungbörnum, erfiðri tanntöku , útbrotum, meiðslum og barnasjúkdómum eins og mislingum. Hún getur dregið úr verkjum og óþægindum og flýtt fyrir bata. Í þessum tilfellum geta foreldrarnir sjálfir lært að styðja barnið í veikindunum. Með því að beita hómópatíu er líka hægt að veita barninu aukinn styrk, svo það geti sjálft unnið betur á veikindunum og komið í veg fyrir að vandinn verði viðvarandi. Þá er betra að leita til hómópata sem hefur lært fagið. Hómópatía hefur líka reynst vel fyrir ofvirk börn, börn með astma, ofnæmi, exem, mígreni, blöðrubólgu, börn sem pissa undir, afbrýðissemi milli systkina og til að hjálpa barni gegnum sorg t.d. við skilnað foreldra svo eitthvað sé nefnt.

Læknir læknaðu sjálfan þig
Margir foreldrar hafa áhyggjur af aukaverkunum lyfja á börn sín og sífellt fleiri leita annarra leiða. Framtíðin hlýtur að vera að hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar geti starfað saman og bætt upp það sem á vantar  hjá hvorri fyrir sig.  Áður fyrr voru lækningar heimilisins mikið í höndum kvenna. Með sérhæfingu nútímans höfum við dálítið misst kjarkinn við að treysta eigin innsæi.  Þetta er að breytast og við erum farin að taka meiri ábyrgð á heilsu okkar.
Í hómópatíu er það ekki remedían sem læknar heldur líkaminn. Mér fannst það mjög heillandi þegar ég kynntist hómópatíunni að geta gert eitthvað sjálf til að hjálpa dóttur minni ef hún veiktist.  Og að hafa í höndunum verkfæri sem er svona hættulaust og aðgengilegt.  Það eru til ótal bækur sem hægt er að styðjast við ef foreldrar vilja reyna fyrir sér og kynnast hvernig hómópatía virkar.  Þannig getum við sjálf haft áhrif á heilsu barnanna okkar, boðið þeim upp á styrkjandi valkost (og bragðgóðan að auki) og um leið lært að þekkja þau betur.  Svo er um að gera að hvetja heimilislækninn til að kynna sér málið.

Guðrún Arnalds, gudrun hjá andartak.is, www.andartak.is