Hómópatía og jóga í fæðingu og eftir fæðingu

Í mínum huga eru fæðing og kraftaverk tvö orð sem eru næstum óaðskiljanleg.  Ég hef tvisvar verið viðstödd fæðingu (fyrir utan þær tvær fæðingar þar sem ég var virkur þáttakandi) og séð ótal myndbönd af fæðingu.  Það sem greip mig mest er hvernig hugarástand kvennanna virðist vera ráðandi þáttur í því hvernig fæðingunni miðar og hversu vel hún gengur fyrir sig.  Ég sá myndband þar sem brasilískar konur fæddu á hækjum sér og það var ógleymanlegt að sjá hversu einbeittar og yfirvegaðar þær voru, og hvernig börnin runnu út eins og þegar kisan mín á kettlinga.  Mér verður líka oft hugsað til langafasystur minnar sem tók á móti börnum í Þingeyjarsýslu í 50 ár og aldrei dó hjá henni barn.  Og ekki var hún með flókin tæki til að styðjast við.  En hún kunni væntanlega eins og margar ljósmæður í dag, að fá konur til að slaka á og leyfa náttúrunni að hafa sinn gang.

Meðganga og fæðing – ekki sjúkdómur
Í dag virðist oft vera talað um meðgöngu og fæðingu eins og sjúkdóm sem þarf að meðhöndla.  Og konur hafa minna og minna um sjálfa fæðinguna að segja.  Sem verður oft til þess að konur treysta ekki á eigið innsæi og visku líkamans til að segja þeim hvað það er sem þær þurfa.  Auðvitað er mikilvægt að tryggja öryggi móður og barns og tækniframfarir nútímans hafa bjargað mannslífum sem ekki hefði verið hægt að bjarga áður.  Í flestum tilfellum þó er fæðing náttúrulegt ferli sem þarf að renna sitt skeið í friði.

Gönguferðir, dans og hugleiðsla
Konur eru gerðar til að fæða börn og vita yfirleitt alveg hvað þær þurfa.  Nútíma lífsstíll hefur þó þau áhrif að fæðing getur gengið erfiðar fyrir sig en hún átti það til að gera í gamla daga.  Þarna eru margir þættir sem vinna saman, eins og hreyfingarleysi, mataræði og streita.  Jógarnir segja að það sem konur þurfi mest á að halda á meðgöngu sé að ganga, dansa og hugleiða.  Gönguferðir og dans eru bæði góð hreyfing og andleg spennulosun.  Hugleiðsla á meðgöngu getur haft mjög mikil áhrif  bæði á móður og barn, og verið ómetanlegur undirbúningur fyrir fæðinguna.  Eftir fæðingu er mikilvægt að koma grindarbotnsvöðvunum sem fyrst í gott form.  Og þar getur jóga aftur komið að góðu gagni.

Hómópatía
Hómópatía er meðferðarform sem er frekar nýkynnt til leiks hér á landi en nýtur vaxandi vinsælda.  Vegna þess hversu hættulaus hómópatían er og oft ótrúlega fljótvirk, þá getur hún verið ómissandi tæki til aðstoðar á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu.  Ég veit ekki um neitt meðferðarform sem er jafn milt og laust við að grípa á nokkurn hátt inn í starfssemi líkamans sem getur um leið gefið jafn markviss og skjót viðbrögð í átt að betri líðan og auknu innra jafnvægi.  Á meðgöngu sérstaklega, þar sem lyf geta verið varasöm er gott að eiga aðgang að slíkum tækjum.

Að meðhöndla líkt með líku
Hómópatía byggir á lögmálinu að meðhöndla líkt með líku.  Efni sem geta valdið ákveðnum einkennum geta líka losað líkamann við lík eða eins einkenni.  Hómópatískar remedíur ýta við lækningamætti líkamans þannig að hann finni sjálfur  leið til að koma aftur á jafnvægi.  Þær eru gerðar úr ýmsum efnum úr náttúrunni sem hafa verið þynnt út á ákveðinn hátt þannig að mælanlegt magn af efninu er lítið sem ekkert.

Að auka líkur á getnaði
Fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að eignast barn getur verið ágætt að byrja á að leita til hómópata áður en farið er að leita í erfiðar hormónameðferðir.  Hómópatía getur verið mjög virk leið til að koma jafnvægi á hormónastarfssemina.  Þegar orsök þess að getnaður verður ekki er sú að hormónin eru í ójafnvægi getur hómópatía verið mjög gagnleg.

Meðgangan
Meðgangan er góður tími til að leita til hómópata og fá greiningu, bæði til að fyrirbyggja og meðhöndla kvilla eins og morgunógleði, brjóstsviða og háan blóðþrýsting, svo eitthvað sé nefnt, og einnig eru til frumusölt fyrir hvern mánuð meðgöngunnar, sem geta bæði nýst konunni og barninu sem er að vaxa innra með henni.

Fæðingin
Víða um heim hafa ljósmæður og fæðingarlæknar fræðst um hómópatíu til að geta notað hana í fæðingu og bæði fyrir og eftir fæðingu.  Þetta er enn óplægður akur hér á landi en hægt er að leita til hómópata og fá upplýsingar um hvað best sé að hafa við hendina, og nánari útskýringar með.  Sumir hómópatar eru tilbúnir að vera innan handar svo hægt sé að hringja í þá á meðan á fæðingunni stendur eða jafnvel fá þá til að vera viðstadda.   Yfirleitt er gott að byrja á að leita til hómópata og fá viðtal og greiningu.  Best er að vera búin að koma nokkrum sinnum svo hómópatinn viti hvað þú ert líkleg til að þurfa í fæðingunni og til að líkaminn hafi haft tíma til að laga það sem ekki var í jafnvægi og fyrirbyggja að úr verði flækjur eða frekara ójafnvægi.  Hómópatískar remedíur eru eins og áður sagði alveg öruggar og valda ekki neinum aukaverkunum.

Grátgjörn Pulsatilla
Hómópati spyr um allt milli himins og jarðar og líklegt er að ef remedía virkar á það sem að er, þá virki hún líka á orkuna þína þannig að þér líði betur yfir heildina.  Ef remedía á að hjálpa þá þurfa fleiri en eitt einkenni að passa við hana og bæði andlegt og líkamlegt ástand þitt þarf að vera tekið með í myndina.  Dæmi um remedíu sem nýtist vel á meðgöngu og í fæðingu er Pulsatilla.  Kona sem þarf Pulsatillu er yfirleitt grátgjörn og viðkvæm fyrir öllu sem sagt er við hana.  Hún getur verið með morgunógleði eða brjóstsviða eða hríðir sem eru óreglulegar og þrátt fyrir mikla verki er lítil útvíkkun og fæðingin gengur hægt.  Hún er ekki þyrst og vill hafa glugga opna.  Hún er líkleg til að hafa mjög breytilega verki og líður best á hægri göngu úti í fersku lofti.  Önnur remedía sem hefur óreglulegar hríðir sem gera lítið gagn er remedían Caulophyllum.  Í fæðingu er líka gott að hafa Aconite við hendina, sem er remedía við ótta og Arnicu sem hjálpar líkamanum að jafna sig hraðar eftir fæðingu.

Reið Chamomilla
Chamomilla getur líka verið mjög gagnleg í fæðingu.  Kona sem þarf Chamomillu er ofurnæm fyrir verkjunum og verður þess vegna afskaplega pirruð og reið.  Hún getur ekki hamið sig og lætur allt vaða sama hver á í hlut.  Í þessum tilfellum verður eiginmaðurinn að sýna staka þolinmæði og passa sig að taka ekki persónulega það sem konan hans kann að segja.  Ég heyrði um konu sem grýtti giftingarhringnum í manninn sinn í þessu ástandi.  Henni (og manninum hennar) hefði líklega liðið mun betur ef hún hefði haft aðgang að remedíunni Chamomillu.

Eftir fæðingu
Eftir fæðingu er gott að eiga aðgang að meiri Arnicu, þar til líkaminn er búinn að jafna sig.  Og Calendulu sem hjálpar til við að græða líkamann – til dæmis ef konan hefur rifnað.  Coffea getur líka verið gagnleg ef konan er ofurviðkvæm og hefur tapað miklum svefni.  Önnur gagnleg remedía eftir fæðingu er Staphisagria, ef þörf hefur verið á miklu inngripi – til dæmis tangarfæðing eða keisaraskurður.  Í slíku tilfelli er þó best að leita til hómópata til að greina á milli hvaða remedíu þarf.  Þar koma fleiri remedíur til greina.

Brjóstagjöf – jurtir og fæðutegundir
Brjóstagjöf getur verið viðkvæmur tími.  Þá er mikilvægt að fá næga hvíld og hugsa vel um mataræðið.  Til eru ýmsar jurtir og te sem geta aukið mjólkurmyndun og sömuleiðis ýmsar fæðutegundir.  Þar má nefna fennel, anís og cummin.  Jógate og engiferte – ekki þó of sterkt.  Tapioca er dæmi um fæði sem eykur mjólkurmyndun og möndlur eru líka góðar.  Annað hvort skinnlausar eða steiktar upp úr olíu.  Tannínsýra í möndluhýðinu hjálpar leginu að gróa.  Möndlur eru líka góðar fyrir konur á blæðingum.

Remedíur í brjóstagjöf
Remedíur sem eru gagnlegar við brjóstagjöf eru Agnus Castus – ef móðirin myndar ekki næga mjólk og remedían Phytolacca ef mjólkin er þykk og þornar fljótt upp eða ef konan fær brjóstabólgu eða stálma í brjóstin.  Pulsatilla og Urtica Urens eru líka dæmi um remedíur sem hjálpa við brjóstagjöf.  Ef konan á erfitt með að gefa brjóst eða langar ekki til þess má skoða remedíuna Sepiu.  Sepia er gagnleg við fæðingarþunglyndi og langvarandi þreytu eftir fæðingu.  Einnig við legsigi eða blöðrusigi ef önnur einkenni Sepiu eru til staðar.  Það sem einkennir konu sem þarf Sepiu er pirringur og óþolinmæði, sérstaklega gagnvart sínum nánustu.  Þessi pirringur stafar oft af orkuleysi og eða hormónaójafnvægi.  Hún er oft sólgin í salt og eða súrt.  Sepia hefur verið gefin með góðum árangri kindum sem yfirgefa lömb sín.  Til eru fleiri remedíur við fæðingarþunglyndi eins og Pulsatilla – sem áður var lýst – grátgjörn og sveiflukennd, og Ignatia, sem er líka grátgjörn en meira taugatrekkt.  Eins og áður sagði er betra að leita til hómópata með dýpri og meira langvarandi vandamál eins og fæðingarþunglyndi.

Börn og hómópatía
Hómópatía er líka ómetanlegt hjálpartæki fyrir ung og eldri börn.  Börn bregðast mjög fljótt við remedíum og eru fljót að lagast ef þau fá það sem þau þurfa.  Dæmi um kvilla þar sem hómópatían gagnast vel eru magakrampar, krónískar sýkingar – t.d. eyrnabólgur og blöðrubólga, exem og útbrot, ofnæmi, asmi, krónískur hósti.  Einnig getur hún verið mjög gagnleg þegar um er að ræða andleg vandamál eins og mikil skapköst hjá börnum, ofvirkni og athyglisbrest eða börn sem fá martraðir.

Lokaorð
Meðganga og fæðing eru ekki sjúkdómur en vissulega verður líkaminn fyrir aukaálagi.  Þegar við það bætist streita og álag samtímans þá er ekki vanþörf á hjálpartækjum sem gera okkur lífið léttara án þess að skaða eða grípa inn í gang náttúrunnar.

Guðrún Arnalds, hómópati
www.andartak.is