Gigt, hvað er hægt að gera

Gigt, hvað er hægt að gera?

Gigt er bólguástand í líkamanum og er ein af meginorsökum gigtar of mikil sýra í blóðinu, sem að veldur bólgum. Margar tegundir eru til af gigt, þær algengustu eru Liðagigt og Slitgigt. Eins má nefna Vefjagigt, Fjölvöðvagigt, Þvagsýrugigt, Psoriasisliðagigt og Rauða Úlfa. Gigt getur gert vart við sig mjög skyndilega eða hún getur stigmagnast yfir langan tíma.

Liðagigt er krónískur sjúkdómur sem lýsir sér í bólgnum liðum sem að geta aflagast og liðverkjum. Hún er algengari hjá konum og kemur oftast fram milli 30-40 ára. Liðagigt er verri í kulda og raka. Einkennin eru að liðir verða stirðir og verkja. Hefðbundin einkenni bólgu s.s. verkur, hiti, roði, fyrirferð og minnkuð hreyfigeta, fylgja. Verkurinn orsakast vegna álags á liðinn og kemur svo í ljós eftir hvíld. Þegar á líður kemur svo fram stirðleiki á morgnana eða við fyrstu hreyfingu. Aðallega í litlum liðum s.s. fingrum og tám. Einnig herjar hún á úlnliði, olnboga, axlir, hné og ökkla og á mjöðm í alvarlegri tilfellum. Verkur og stirðleiki getur einnig komið fram í hálsi og kjálkaliðum og þar sem að bringubein og viðbein mætast. Vöðvaverkir aukast, vöðvakrampar og eyðilegging liða fer af stað. Þessu fylgir að útlimir dofna og verða kraftlausir sökum bólgu, bólgu í taugum og sinum og taugar klemmast. Ef síðan sinar verða fyrir svo langvarandi áreiti geta þær slitnað og þá getur liðurinn aflagast. Gigtarhnútar geta myndast á álagssvæðum s.s. á olnbogum og kjúkum, það gerist hjá u.þ.b. 20% einstaklinga.

Slitgigt lýsir sér þannig að brjóskið í liðnum eyðist og þynnist, samtímis því bólgnar liðpokinn og vökvinn í liðnum eykst og liðamótin gildna. Þetta ástand er algengara hjá eldra fólki og hjá konum. Einnig eru meiri líkur á slitgigt hjá keppnisfólki í íþróttum, verkafólki og fólki sem þjáist af liðagigt fyrir og þar sem að liðir hafa orðið fyrir einhverskonar hnjaski eða skemmdum. Slitgigt er verri í kulda og raka. Einkennin eru algengust í hryggjarliðum, höndum og fótum, einnig í mjöðmum og hnjám, þ.e. í öllum liðum með miklu álagi. Á byrjunarstigi eru óþægindi og eymsli í liðnum. Þetta ágerist og verður slæmur verkur og stífleiki, allt verra við hreyfingu en betra í hvíld. Erfitt er að byrja að hreyfa sig úr kyrrstöðu, en þegar liðamótin hitna, dregur úr eymslunum. Það brakar í liðum og vöðvar í kring eru viðkvæmir. Vöðvarnir rýrna með tímanum og bólga myndast vegna aukins vökva í liðunum.

Matur getur oft farið misvel í einstaklinga með gigt og gott getur verið að prófa sig áfram með mataræðið og sjá hvort að með því að sleppa því að borða vissan mat geti það dregið úr einkennum. Oft þarf að hreinsa mikið til í mataræðinu, fylgja einföldu og léttu fæði, í einhvern tíma og losa líkamann við óæskileg úrgangsefni.

Mjólkurvörur eru þungmeltar og íþyngja því hreinsikerfi líkamans. Þær geta haft neikvæð áhrif á sogæðakerfið, sérstaklega þegar búið er að gerilsneiða mjólkina og fitusprengja. Ostar eru verstir.

MSG eða Þriðja kryddið, E-621, monosodiumglutamate, bragðefni. Þetta efni leynist víða í unnum matvælum og ber alltaf að varast. Það eykur allar bólgur í líkamanum og veldur þar af leiðandi meiri verkjum.

Salt eykur bólgur í líkamanum og myndar bjúg. Sykur ber að varast, hann veikir allt sem er veikt fyrir.

Svínakjöt skal varast, þar sem að svín hafa ekki gott líkamshreinsikerfi.

Ýsu, rækjur og humar einnig, þar sem að þessar tegundir eru hræætur og innihalda efni sem fólk ræður illa við, ef hreinsikerfi þess er ekki nógu gott.

Sítrusávextir hækka sýrustig í blóðinu, en sítrónur eru þó undantekning á því og eru ráðlagðar t.d. með því að kreista ½ sítrónu í volgt vatn á hverjum morgni á fastandi maga.

Maturinn spilar oft stóra þátt í líðan okkar, en margt er annað hægt að gera til að fá líkamann til að starfa betur og draga úr verkjum. T.d. að nota jurtir til að hjálpa hreinsilíffærum til að vinna betur, lifur, lungum, nýrum og ristli. Margar jurtir hafa einstaka hreinsunarhæfileika og mikið lækningargildi. Oft þarf að huga að meiri útiveru og hreyfingu, súrefni eitt og sér getur hjálpað mikið. Og eins og alltaf, drekka mikið vatn.

Hómópatía hefur einnig reynst mjög vel í mörgum gigtartilfellum, hér að neðan er listi yfir remedíur sem að oft hafa hjálpað við slík tilfelli, tekið skal fram að ávallt er heillavænlegast að leita sér aðstoðar hjá reyndum hómópata, til að auka líkur á að rétt remedía sé valin:

Arnica:  Þrálát gigt með eymslum og tilfinningu um mar. Verkir eru verri við hreyfingu og snertingu.

Aurum metallicum:  Verkir flakka um liði og vöðva og eru betri við hreyfingu og hita, en verri á kvöldin.  Djúpir verkir í útlimum þegar á að fara að sofa og óþægindi er vakna á morgnana. Oft alvarlegt fólk með mikinn metnað í vinnu, jafnvel þunglyndi.

Bryonia:  Stífleiki og mjög sárar bólgur, stingandi verkir, verður verri við alla hreyfingu. Ástand stigmagnast og er verra í köldu, þurru veðri. Öll snerting og smáhreyfing veldur miklum óþægindum.  Þéttur þrýstingur og hvíld getur hjálpað. Einstaklingur vill liggja alveg kyrr og vill ekki vera truflaður.

Calcarea carbonica:  Mjög sárir gigtarverkir með hnúðum í kringum liði. Bólgur og sárindi eru verri við kulda og raka og eru oftast á hnjám og höndum. Veikleiki í vöðvum, einstaklingar þreytast auðveldlega við áreynslu og eru oft kulsæknir og sljóir.

Causticum:  Oft aflagaðir liðir og einstaklingur hefur vandamál með sinar. Veikir vöðvar sem að eiga til að dragast saman. Hendur og fingur eru oftast verstir. Stífleiki og verkir eru verri við kulda og heldur betri við hita. Einstaklingi líður oftast best ef að rignir.

Calcarea fluorica:  Liðverkir verða betri við hita og hreyfingu. Liðir harðna og stækka og hnúðar myndast, geta einnig aflagast. Gigt byrjar eftir meiðsl á liðum.

Dulcamara:  Ef gigt versnar við að veðrið verður kalt og rakt eða eftir að einstaklingur blotnar og verður kalt. Oft sterkbyggt fólk, viðkvæmt í baki og stíft í vöðvum, ofnæmisfólk.

Kali bichromicum:  Oft ef að liðverkir koma til skiptis við astma eða magaverki. Verkir koma og fara skyndilega. Óþægindi og bólgur eru verri við hita og í heitu veðri.

Kali carbonicum:  Gigt með miklum stífleika og stingandi verkjum, verri snemma morguns og verri við kulda og raka. Liðir þykkna og aflagast.

Kalmia latiflora:  Miklir liðverkir sem að koma skyndilega, byrja oft í efri liðum og leiðir í þá neðri. Verkir og bólgur byrja í olnbogum og leiða niður í úlnlið og hönd. Verri við hreyfingu og á nóttinni.

Ledum palustre:  Gigt byrjar í neðri liðum og leiðir upp í þá efri. Verkir og bólgur byrja í tám og leiða svo upp í ökla og hné, brakar í liðum. Betri við kaldan bakstur.

Pulsatilla:  Liðverkir flakka um líkamann, verri við hita og betri við ferskt loft og kalda bakstra.

Rhododendron:  Bólgur og sárindi magnast fyrir stormasamt veður og halda áfram þar til að veður gengur niður aftur. Verri við kulda og raka, verri snemma morguns og eftir að hafa verið lengi kyrr. Betri við hita og hæga hreyfingu, einnig eftir að hafa borðað.

Rhus toxicodendron:  Gigt með verkjum og stífleika sem er verri á morgnana og verri við fyrstu hreyfingu, en verður betri við áframhaldandi hreyfingu. Heit böð og bakstrar losa um stífleikann og verkina. Verður verri við kalt og blautt veður. Einstaklingur er eirðarlaus og á erfitt með að finna sér þægilega stellingu.

Ruta graveolens:  Gigt með miklum stífleika og lömunartilfinningu, verri við kulda og raka og verri við áreynslu. Sinar og liðpokar oft illa farnir eða skemmdir eftir ofreynslu.

Guðný Ósk Diðriksdóttir hómópati LCPH, http://www.htveir.is