Hvað er góð heilsa – af hverju verðum við veik?

Í dag erum við mun upplýstari um heilsu okkar, líkama og líðan. Við gerum okkur grein fyrir því hversu dýrmæt, góð heilsa er. Öll viljum við njóta elliáranna á sem bestan hátt og geta tekið fullan þátt í lífi barna okkar og barnabarna. Ef við höfum farið lengi illa með heilsu okkar, getur verið erfitt að ná henni aftur til baka.

Síðustu ár hefur sjúkdómum og sjúklingum fjölgað mikið, sjúklingar eru að greinast yngri og með alvarlegri sjúkdóma. Innlagnir á spítala aukast ár frá ári og lyfjakostnaður margfaldast ár hvert. Það er skelfileg staðreynd að íslendingar nota orðið meira af lyfjum en nágrannaþjóðirnar og heilbrigðiskerfið okkar verður alltaf dýrara og dýrara í rekstri.

Það er staðreynd að einstaklingur getur haft áhrif á heilsu sína með því að velja skynsama lífshætti. Sífellt fleiri vilja sjálfir bera ábyrgð og lifa samkvæmt þessari staðreynd, hafa mótað sér skoðanir og gera kröfur um valkosti og leiðir. Við lifum á upplýsingaöld og auðvelt er að sækja sér fróðleik um sjúkdóma og einnig, hvaða valkostir eru í boði þegar eitthvað bjátar á.

Það eru grundvallar mannréttindi að geta valið sjálfur hvaða leiðir henta best.  Við látum ekki aðra segja okkur lengur fyrir verkum og hvað sé okkur fyrir bestu, heldur veljum við sjálf.

Hvað er heilsa?
Orðið heilsa kemur frá “ að verða heill “.
Hahnemann, upphafsmaður hómópatíunnar, talaði um að með því að heila þann sjúka, sé verið að lagfæra eða koma á aftur, því sem hann hafi tapað.  Að halda góðri heilsu er samspil margra þátta, enginn þeirra er mikilvægari en annar og er það á okkar ábyrgð að sjá til að næra þá alla að jöfnu.

Líkamleg heilsa: til að vera líkamlega heil þurfum við í fyrsta lagi, ferskt og næringarríkt fæði og hreint vatn. Góður svefn og slökun eru nauðsynleg fyrir góða heilsu, hreyfing og heilbrigt viðhorf gagnvart kynlífi ekki síður.  Hin stöðuga notkun á unninni og tilbúinni fæðu og ofnotkun á örvandi efnum s.s. lyfjum, kaffi, alkóhóli og tóbaki, skaðar heilsuna og dregur úr líkamlegum þrótti.

Tilfinningaleg heilsa:  til að halda góðu tilfinningalegu jafnvægi, þurfum við stuðning, traust, kærleika og félagsskap frá vinum og fjölskyldu.  Við þurfum að geta óhindrað tjáð tilfinningar okkar og gera okkur meðvituð um hvernig okkur líður og þekkja í sundur neikvæðar og jákvæðar tilfinningar. Kunna að finna fyrir tilfinningunum og leyfa okkur að grípa sjálf inní ferlið.  Þetta er kallað tilfinningagreind.  Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning á að viðurkenna og huga að, tilfinningalegu jafnvægi og að það jafnvægi hafi mikil áhrif á líkamlega heilsu.
Við höfum öll þörf á, að vera elskuð, að elska og að hafa tilgang í lífinu, ef að við missum þessa þætti, þá gæti dregið úr heilsunni. Sem dæmi eru veikindi eftir atvinnumissi eða makamissi mjög algeng.

Hugarfarsleg heilsa:  mikilvægt er að hafa jákvæð viðhorf, að aga hugann og efla jákvæða þætti hans.  Efla minni, rökvísi, ímyndunarafl og sundurgreinandi hugsun.  Við þurfum að geta hreinsað hugann af neikvæðum áhyggjum og kvíða.  Það gerum við með því að, í fyrsta lagi að þekkja þessar hugsanir og kunna að breyta þeim í jákvæðari viðhorf.  Ef að við lifum stöðugt í neikvæðum hugsunum, mun hugur okkar verða sjúkur.  Ef að stöðugt er verið að horfa á ljótar ofbeldismyndir, þá smám saman fer okkur að líða illa og við verðum neikvæð.  Nauðsynlegt er að næra huga sinn með jákvæðu efni, eins og að hlusta á fallega tónlist, horfa á uppbyggjandi bíómyndir og að lesa góðar bækur.  Umfram allt hugsa jákvætt.

Andleg heilsa:  byggist á að þekkja muninn á réttu og röngu,  finnast við tilheyra, að hafa tilfinningu um tilgang og viljann til að láta gott af sér leiða.  Hugsa um hag annarra til jafns við sinn eigin hag.  Ójafnvægi og óánægja á þessu sviði getur oft leitt til þunglyndis, því án tilfinningar um, að við tilheyrum einhverju eða einhverjum, getur verið erfitt að finna tilgang í lífinu.

Allir þessir þættir eru jafn mikilvægir. Það er einstaklingsbundið hversu lengi við komumst upp með að sinna þeim ekki. Hinn gullni meðalvegur hefur reynst best.  Ekki er endilega nauðsynlegt að neita okkur um alla hluti, heldur að gæta hófs.

Næmleiki er það hugtak sem að oft er notað yfir hversu móttækileg við erum fyrir sjúkdómum og kvillum. Hvar, hvernig og hversu mikil veikindi verða, fer eftir heilsu hvers einstaklings.  Þetta getur verið mismunandi eftir einstaklingum, fjölskyldum og kynþáttum. Hvert okkar hefur veika hlekki sem við erfðum frá foreldrum okkar, vegna slyss eða sjúkdóms sem að á einhvern hátt hefur stíflað heilunarorku okkar. Þegar okkur líður vel og erum í góðu jafnvægi er líklegra að við stöndum af okkur flensur, kvef og umgangspestir.

Nauðsynlegt er að læra að hlusta á líkamann sinn og nema skilaboð hans. Veikindi eru ekki alltaf neikvæð. Eðlilegt er að veikjast 1-2 svar á ári.  Líta má svo á, að ónæmiskerfið sé í góðum leikfimistíma, þar sem nauðsynlegt er fyrir ónæmiskerfið að fá áreiti til að halda sér í formi.

Það er ekki alltaf tilviljun, hvar og hvernig við veikjumst. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem fær oft hálsbólgu, er oft sá sem ekki segir hug sinn, tjáir ekki reiði sína og bælir niður tilfinningar sínar. Kvef eða flensa geta tengst því að allt of mikið er í gangi, jafnvel smá vonbrigði eða sorg getur raskað orku líkamans og mótstaða hans minnkar.  Stuttu eftir að hafa farið í jarðarför eða fengið slæmar fréttir, er líkaminn næmari og því líklegri til að fá kvef eða aðrar umgangspestir. Líkaminn er að gefa okkur skilaboð um að fara hægar, vinna okkur útúr aðstæðum og hvíla okkur.

Hvað gerist ef við hlustum ekki?

Guðný Ósk Diðriksdóttir.  Hómópati LCPH, http://www.htveir.is
Rósa Bjarnadóttir.  Hómópati LCPH