Hómópatía fyrir hunda og önnur gæludýr

“Æðsta markmið lækningar er hin hraða, þýðlega og varanlega endurreisn heilsu … á sem fljótastan, áreiðanlegastan og skaðlausastan hátt…”
Samuel Hahnemann

Hér er ætlunin að kynna stuttlega hómópatíu, sem er til margra hluta nytsamleg og getur auðveldað fólki að fást við ýmis dagleg vandamál á einfaldan og náttúrulegan hátt. Það er ljóst að einungis gefst tóm til að tæpa á helstu og einföldustu atriðum sem duga gæludýraeigendum til heimilisnota. Erfiða sjúkdóma og hættulegt ástand er auðvitað skylt og rétt að láta til þess lærða fagmenn um.

Að lækna líkt með líku
Hómópatían er rúmlega 200 ára gömul grein og byggir á kenningum þýska læknisins og efnafræðingsins Samuel Hahnemann (1755-1843) um að líkt lækni líkt. Kenning þessi er þó ekki ný af nálinni, heldur setti Hippókrates (470-400 f. Kr.), sem oft er kallaður faðir læknisfræðinnar, hana fram. Einnig var hún þekkt fyrir hans daga í alþýðulækningum í Norður-Afríku.
Orðið hómópatía er komið úr grísku. Omoeios þýðir líkt en paþos þýðir þjáning eðasjúkdómur. Þannig þýðir orðið áþekk þjáning eða líkt læknar líkt.
Hómópatar gefa fólki sem á erfitt með svefn stundum hómópatalyf sem er búið til úr kaffi. Fólk með ofnæmiskvef, þar sem rennur úr augum og nefi með sviða og ertingu, fær stundum hómópatalyf úr rauðlauk – og hver kannast ekki við það sem gerist ef maður drekkur of mikið kaffi eða sker hráan lauk?
Þessi grundvallarkenning hómópatíunnar er andstæð því sem við erum vön og það tekur fólk stundum nokkurn tíma að skilja að aðferðin virkar engu að síður afbragðsvel. Öll þekkjum við lyf sem virka öfugt, þ.e. lækna með andstæðum. T.d. getum við farið út í apótek og fengið lyf sem fjarlægja höfuðverk eða lækka sótthita, en ef við förum með sama höfuðverkinn eða hitann til hómópata fáum við lyf sem ylli höfuðverk eða hita ef við værum heilbrigð. Hómópatalyfin gera í raun ekkert fyrir líkamann, heldur er hæfileiki líkamans til að læknast sjálfur virkjaður með þessari aðferð.
Hómópatían barst fljótlega til Íslands og hér störfuðu yfirleitt 1-3 hómópatar, eða smáskammtalæknar, eins og þeir kölluðust. Undanfarin þrettán ár hefur breskur skóli, College of Practical Homoeopathy, haft útibú hérlendis og útskrifað hómópata eftir fjögurra ára nám. Þegar þetta er skrifað (sumar 2006) hafa 50 Íslendingar útskrifast og svipaður fjöldi er við nám.
Erlendis, t.d. í Frakklandi og Belgíu, eru til hómópataskólar sem eru sérstaklega fyrir dýralækna, og kenna þeim að nota hómópatíu samhliða hefðbundnum dýralækningum, eða jafnvel í staðinn fyrir þær.

Hómópatalyf
Hómópatíunni er stundum ruglað saman við grasalækningar vegna þess að efnin sem notuð eru til að búa til hómópatalyf (e. remedies) eru að miklu leyti úr jurtaríkinu. Ekki er hægt að líkja þessu saman þar sem hómópatían byggir á mögnun með þynningu (e.potentiation). Þá er notuð aðferð sem Hahnemann þróaði til að draga orkulegar upplýsingar úr viðkomandi efni, svo hægt sé að auka virknina á líkama, tilfinningar og huga en losna um leið við hættulegar aukaverkanir, möguleikann á vanabindingu og of stórum skömmtum á borð við það sem við þekkjum frá venjulegri lyfjafræði og inntöku náttúrulegra efna.
Auk þess að nota efni úr jurta- og steinaríkinu eru notuð efni úr dýraríkinu, t.d. hafa verið unnin mjög mikilvæg hómópatalyf úr hundamjólk, býflugum og kolkrabbableki. Þó er sá munur á venjulegum lyfjum og hómópatalyfjum að engar tilraunir eru gerðar með virkni hómópatalyfja á dýrum, en það er nokkuð sem skiptir marga dýravini miklu máli, auk þess sem engin mengun eða eitraður úrgangur fellur til við framleiðsluna.
Það getur reynst snúið að velja rétt hómópatalyf ef vandamálið er flókið, enda tekur nám í hómópatíu mörg ár. Hingað til hafa verið skrásett nokkur þúsund mismunandi hómópatalyf, en tiltölulega einfalt er að koma sér upp safni með 10-30 algengustu sjálfshjálparlyfjunum sem þörf er á í daglegu amstri. Þau fást í heilsuvöruverslunum í Reykjavík og á Akureyri, en það er líka auðvelt að panta á netinu frá útlöndum.

Hómópatía fyrir dýr
Skv. reglugerð frá Landbúnaðarráðuneytinu er hérlendis leyfilegt að beita hómópatíu á allar skepnur sem ekki eru ætlaðar til átu. Hómópatía getur þó aldrei komið í staðinn fyrir skurðaðgerðir, sauma, röntgenmyndir og gips utan um brotin bein, en virkar oft mjög vel á tilfinningaleg vandamál og óæskilega hegðun, þar sem dýralæknar, þjálfarar og eigendur vita ekki alltaf til hvaða ráða skal grípa. Einnig eru til ógrynni af einföldum skyndihjálparremedíum sem geta linað þjáningar dýrsins á leiðinni til læknis eftir slys, og sem geta dregið úr líkunum á varanlegum skaða. Hægt er að minnka líkur á sýkingum í grunnum sárum og flýta fyrir því að þau grói. Þar með minnka líkurnar á ljótum örum, sem er auðvitað sérlega mikilvægt fyrir dýr sem ætlunin er að sýna.

Hómópatía fyrir hunda
Hvað varðar hunda sérstaklega henta mismunandi remedíur mismunandi hundakynjum, enda eru ólík markmið að baki ræktun, t.d. hefur verið reynt að draga fram hæfileika til að safna fé saman í hjörð (halda röð og reglu á hlutunum) hjá þýskum fjárhundum, en hjá íslenskum fjárhundum hæfileikann til að reka safnið á undan sér. Það kallar á mismunandi remedíur hvað varðar andleg einkenni og þar getur verið betra að lesa sér til um hómópatíu fyrir menn, enda mikil áhersla lögð á andlega líðan í meðhöndlun fólks. Sama getur átt við um ketti og ýmis önnur dýr, t.d. hesta (vagnhesta, kappreiðahesta, smáhesta o.s.frv.) Sérkennileg hegðun og hvers kyns sérviska getur verið góður leiðarvísir að remedíu.
Einnig hefur uppeldi áhrif á geðslag hundsins og þörf fyrir remedíur þegar eitthvað ber út af. Þeim mun lengri tíma sem dýr dvelja með eigendum sínum, þeim mun meira virðast þau endurspegla mannfólkið (herma eftir?) með hegðun sinni. Hundar, hestar, kettir og jafnvel páfagaukar sýna mjög skýr andleg einkenni, en nautgripir og sauðfé síður.

Hómópatía fyrir fólk
Fyrir menn er við hæfi að geta þess hér að meðal þess sem hómópatar fást við hjá fólki eru heymæði og ofnæmi fyrir dýrum, eftirköst eftir bit (stífkrampi, sýkingar í sárum), mar og beinbrot sem gróa ekki (t.d. eftir spark frá hesti eða fall af hestbaki) og hræðsla við hunda og önnur dýr.

Inntaka hómópatalyfja
Yfirleitt gefst best að nota bara eina tegund af hómópatalyfi í einu, gefa t.d. þrisvar á dag í 3-4 daga ef vandamálið hefur verið til staðar einhvern tíma. Á þeim tíma ætti að sjást hvort lyfið virkar, sem ætti að vera í lagi ef ástandið er ekki alvarlegt. Ef mörgum lyfjum er blandað saman er engin leið að vita hvert þeirra hjálpaði ef vera kynni að þyrfti að endurtaka meðferð eða halda lengur áfram. Sams konar ruglingur getur átt sér stað ef blandað er saman meðferð með hómópatalyfjum og venjulegum lyfjum til dýralækninga, þá er oft betra að nota aðra hvora aðferðina í einu.
Yfirleitt eru hómópatalyf seld í töfluformi. Töflurnar eru úr sykri og best er að mylja eina töflu milli tveggja teskeiða og skófla upp í munn dýrsins (jafnvel nægir að láta duftið inn í vör/kinn utan við tanngarðinn), eða einfaldlega leysa eina töflu upp í drykkjarvatni dýrsins. Eins er hægt að panta sérstaklega lyf á flöskum með dropateljara.
Batinn tekur svo mislangan tíma, allt eftir eðli vandans, lífskrafti viðkomandi dýrs og aldri. Stundum lítur út fyrir að einkennin (sérstaklega útskilnaður og gröftur ýmiss konar) versni í nokkra klukkutíma eða daga meðan viðgerðarferlið er að byrja og er ákafast. Yfirleitt er þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því, líkaminn hefur innbyggðan hæfileika til að læknast, sem er nokkuð sem við gleymum oft nú til dags.

Hvað get ég gert?
Í raun og veru er hægt að gefa hómópatalyf við öllu milli himins og jarðar. Hér verða nefnd örfá einföld dæmi og hómópatalyf sem gætu komið til greina (hér þarf vart að taka fram að fara þarf með sjúk og slösuð dýr til dýralæknis):

Áföll, slys, lost (aðalskyndihjálparremedían sem allir eiga að ganga með í vasanum!): Arnica
Aðskotahlutir (t.d. flísar eða óhreinindi í sári): Silica
Afbrýðisemi: Pulsatilla, Hyoscyamus, Lachesis
Augu (sýkingar og áverkar): Euphrasia
Árásargirni án ástæðu: Belladonna
Barsmíðar (hræðsla eftir slæma meðferð): Staphysagria
Beinbrot sem gróa illa: Symphytum
Blæðing: Arnica, Phosphorus
Bólga: Belladonna, Apis, Ferrum phosphoricum eða Mercurius
Eirðarleysi með kvíða: Arsenicum
Grunn, hrein(suð) sár: Calendula
Gröftur og kýli: Hepar sulphuris eða Silica
Harðlífi: Nux vomica eða Silica
Hræðsla (flugeldar, þrumuveður, einvera, ferðalög, lóðarí, eftir slys): Aconite eða Phosphorus
Júgurbólga: Belladonna, Silica, Phytolacca eða Lac caninum
Máttleysi, skjálfti eða lamandi ótti: Gelsemium
Sinnuleysi móður um ungviði: Sepia
Skurðsár (glerbrot, eftir skurðaðgerð) og ljót fleiður: Staphysagria
Sorg eða missir: Ignatia
Sótthiti: Belladonna eða Pyrogen
Stirðleiki: Rhus-t. eða Bryonia
Stungusár (naglar, flísar, gaddavír og skordýrastungur): Ledum eða Hypericum
Taugaskaði (klemmd skott og loppur): Hypericum
Tilhneiging til að fá flær og mýbit: Staphysagria
Tognun: Rhus-t.
Uppköst og niðurgangur: Nux vomica, Arsenicum, China
Viðkvæmni og kvíði (t.d. aðskilnaðarkvíði): Pulsatilla, Ignatia
Örvefur: Silica

Bækur:
Dogs and Homoeopathy, The Owner’s Companion e. Mark Elliott og Tony Pinkus.
The Homoeopathic Treatment of Small Animals, Principles and Practise e. Christopher Day.
Homeopathic Care for Cats and Dogs e. Don Hamilton.
Homeopathy. What to expect? e. Edward De Beukelaer.
Dr. Pitcairn’s Complete Guide to Natural Health for Dogs and Cats e. Richard E. Pitcairn.
The Complete Homeopathy Handbook 
e. Miranda Castro er góður inngangur að hómópatíu fyrir byrjendur ásamt því að vera handhægt uppflettirit um einfalda hómópatíumeðferð fyrir mannfólk. Nýtileg á margan hátt fyrir húsdýr.
Hægt er að panta bækur á netinu, t.d. á www.amazon.com, www.minimum.com og á síðum sem veita upplýsingar um hómópatíu eða selja remedíur.

Heimasíður:
Upplýsingar og greinar um hómópatíu:
www.imsland.is/birna
www.homopatar.is
www.a2zhomeopathy.com
www.abchomeopathy.com
www.homeopathyhome.com

Hér er hægt að panta remedíur og remedíusett:
www.ainsworths.com
www.helios.co.uk

Hér er hægt að fletta upp sjúkdómseinkennum dýra og viðeigandi hómópatalyfjum:
www.vethomopath.com

Ef leitað er á netinu er bandarísk stafsetning “homeopathy” en bresk “homoeopathy” og þýsk “Homöopathie”.

Birna Imsland Hómópati, höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari, Bowentæknir.

Heimasíða Birnu: http://www.imsland.is/birna/