Heilsuþrepin

Heilsuþrepin 7

Í fyrri grein okkar “Hvað er góð heilsa – afhverju verðum við veik?” enduðum við á að spyrja “Hvað gerist ef að við hlustum ekki?”  Hér veltum við þessari spurningu enn frekar fyrir okkur og leitumst við, á einfaldan hátt, að útskýra hvernig líkaminn getur brugðist við.
Mannslíkaminn er kraftaverk, hann kann að heila sig sjálfur og er fljótur að bregðast við, sérstaklega á meðan að við erum yngri að árum og líkamsstarfsemin í fullu fjöri.
Eins segir hann til um, þegar að honum er misboðið á einhvern hátt.  Það gerir hann með því að sýna einkenni, t.d. hita, slímmyndun, magaóþægindi o.fl. Einkennin geta verið missterk og misalvarleg og því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, að þau eru að segja okkur að staldra við og skoða hvað veldur ójafnvæginu. Erum við veik? Hve langt erum við leidd? og Hvernig endurheimtum við góða heilsu?  Hver og einn þarf að meta þessar spurningar og bregðast við, til að koma sér aftur í jafnvægi og gefa líkamanum tækifæri til að halda sér eins ofarlega og kostur er, í heilsuþrepunum 7.

Fyrsta þrep

Heilbrigði:
•       Hér er viðkomandi eins heilbrigður og best verður á kosið.  Líkaminn nær að verja sig fyrir umhverfinu bæði andlega og líkamlega.  Jafnvægi er til staðar, líkamlega, andlega, hugarfarslega og tilfinningalega.

Annað þrep

Jafnvægi/ójafnvægi:
•       Hér er líkaminn farinn að upplifa ójafnvægi öðru hvoru og sýnir þá mild sjúkdómseinkenni.  Í þessu þrepi er nægilegt að staldra aðeins við og taka því rólega í 1-2 daga og þá nær líkaminn að rétta sig við sjálfur án utanaðkomandi hjálpar.  Hér er verið að tala um t.d. vægan höfuðverk, vöðvabólgu eða lítilsháttar truflun á meltingu eða tíðarhring kvenna.

Þriðja þrep

Bráðaveikindi:
•       Þekktasta ástandið í þessu þrepi er flensa og kvef.  Oftast fylgja þessu ástandi, hiti og aukin slímframleiðsla.  Hér þarf að liggja fyrir og fá nægan vökva til að næra hreinsunarkerfi líkamans.  Þetta ástand gengur yfir á 5-10 dögum.  Oft gefum við okkur ekki tíma til að liggja þessi veikindi af okkur og grípum til lyfja, til að flýta ferlinu sem er í sjálfu sér óþarfi, þar sem ekki er um alvarlegt ástand að ræða.  Ef við hlutsum ekki og breytum engu, höldum við áfram niður þrepin og endum í síendurteknum sýkingum.

Í þessum þremur fyrstu þrepum, viljum við helst vera.  Eins og við minntumst á í fyrri greininni er mjög eðlilegt og gott fyrir líkamann að upplifa svona áreiti 1-2svar á ári. Eðlilegt er að vafra á milli þreps eitt og þrjú.  Telst það, að vera við góða heilsu.

Fjórða þrep

Þrálátar sýkingar:
•       Í þessu þrepi er líkaminn kominn í mikið ójafnvægi og farinn að minna reglulega á sig.  Hér er oft búið að stoppa eðlilega hreinsun líkamans í þriðja þrepi, t.d. með inngripi í formi lyfja og dregið hefur úr getu hans til að hreinsa sig sjálfur.  Úrgangsefni fara að hlaðast upp og mikilvæg sveppa- og bakteríuflóra húðar og slímhúðar fer að raskast.  Það leggur óvenju mikið álag á ónæmiskerfið.  Þetta sýnir sig með endurteknum, þrálátum sýkingum t.d. kvefi, flensum, ennis- og kinnholubólgum og hálsbólgum, sem oft er erfitt að losna við.  Einnig sem mikið orkuleysi og jafnvel sem þunglyndi.

Fimmta þrep

Ofnæmi/óþol:
•       Þetta þráláta ástand í fjórða þrepi íþyngir ónæmiskerfinu það mikið að það fer að lokum að bregðast við meinlausum efnum, sem við ættum annars að þola vel, t.d. mjólk, eggjum nikkeli, ryki, o.fl.  Hér sýnir líkaminn veikleika og einkenni eins og t.d. frjókornaofnæmi, asma og óþoli gagnvart ýmsu sem að viðkomandi þoldi áður.

Sjötta þrep

Sjálfsónæmi/hrörnun:
•       Á þessu stigi hefur líkaminn orðið ansi mikið að gera, bæði við að hreinsa út úrgangsefni og ofnæmisframkallandi efni.  Hann nær ekki að hreinsa sig nægilega mikið þannig að úrgangsefnin fara að safnast fyrir í bandvef, vöðvum, húð, sinum og liðum.  Sjúklingur fer að finna fyrir einkennum eins og verkjum í vöðvum líkamans, liðar- og gigtarverkjum, lungna- og húðsjúkdómum.  Hrörnun á sér stað í blóðrásarkerfi hans og innri líffærum, sem sýna sig með t.d. pokum/sepum í þörmum, legsigi, skeifugarna- og magasári, blóðþrýstingsvandamálum, eins sem stoðkerfisvandamálum eins og brjósklosi.  Eftir langvarandi áreiti á ónæmiskerfið, getur myndast svokallað sjálfsónæmi. Þar má telja upp t.d. Chron´s veikindi, MS sjúkdóminn og liðagigt.

Sjöunda þrep

Frumubreytingar:
•       Langur vegur getur verið á milli þrepa 6 og 7.  Hér er ástandið orðið alvarlegt.  Einstaklingur hefur ekki hlustað á varnir líkamans í gegnum tíðina, heldur haldið áfram með óbreyttri hegðun.  Engin lífstílsbreyting hefur orðið og einungis verið slegið á einkennin sem líkaminn hefur verið að sýna, með inntöku hefðbundinna lyfja. Bandvefur líkamans getur ekki tekið við meiru af úrgangsefnum þannig að þau fara að þröngva sér inn í frumuna, sem hvorki fær nægt súrefni, né næringu til að losa sig við úrgangsefnin.  Eftir langvarandi uppsöfnun og ógnun af úrgangsefnum, skort á súrefni og næringu bugast brennslan í frumunni og hún getur breyst í krabbameinsfrumu sem lifir best í súrefnislitlu umhverfi.

Klifrað til baka upp þrepin 7

Heilsa endurheimt:
•       Einungis við sjálf getum endurheimt okkar eigin heilsu og eru margar leiðir sem að bjóðast. Til að ná bestu hugsanlegu heilsu aftur, þarf að príla upp hvert þrep fyrir sig.  Með þolinmæði og skynsemi, ásamt lífstílsbreytingum, verður þetta klifur upp þrepin, auðveldara.  Oftast er hægt að snúa veikindum við og stefna að betri heilsu.  Það tekur tíma og þarf að taka jafnt á öllum þeim þáttum sem skipta okkur máli, líkamlegum, andlegum, hugarfarslegum og tilfinningalegum.  Hver og einn verður að finna þá leið sem honum finnst henta best.  Hómópatía er svo sannarlega einn þessara valkosta, sem geta hjálpað við slíkar aðstæður.

Með þessum hugmyndum um heilsuþrepin 7, vonumst við til, að útskýra á sem einfaldastan hátt, að sjúkdómar banka ekki skyndilega uppá hjá okkur, heldur höfum við oftast fengið margar viðvaranir, en ekki hlustað!  Hið óhjákvæmilega gerist þá og við förum niður hvert þrepið á fætur öðru.  Aldrei er of seint að snúa við, vilji er allt sem að þarf, ásamt því taka þá ákvörðun um, að vilja hjálpa sér sjálfur.  Þá fyrst fer varanlegur árangur að sjást og uppskeran verður, betri heilsa.

Guðný Ósk Diðriksdóttir hómópati LCPH, http://www.htveir.is og Rósa Bjarnadóttir hómópati LCPH