Hómópatía á íslensku
Hómópatía er gamalt og rótgróið meðferðarform sem er vel þekkt víða um lönd, enda eru um 430 milljónir manna sem nýta sér hómópatíu á heimsvísu. Hómópatía kom til Íslands um miðja nítjándu öld og var nokkuð útbreidd hér á landi allt þar til um miðja tuttugustu öld þegar starfandi hómópötum fækkaði hratt sökum aldurs og hætta var á að kunnátta um fræðin myndi tapast frá landinu. Sem betur fer var blásið lífi í fræðin árið 1993 þegar hópur fólks sótti sér nám í hómópatíu og síðan þá, hafa útskrifast um 80 hómópatar hér á landi. Það sem vantaði hinsvega sárlega var aðgengilegt efni á íslensku fyrir almenning um hómópatíu, bæði til að hafa greiðari aðgang til að kynna sér hugmyndafræðina og einnig til að eiga kost á að geta flett upp og borið saman remedíur til að geta hjálpað sér og sínum nánustu.
Tveir hómópatar, þær Guðný Ósk Diðriksdóttir og Anna Birna Ragnarsdóttir, tóku af skarið og ákváðu að gefa út bækur til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir fræðiefni um hómópatíu á íslensku.Með útgáfu bókanna er auðveldara að nálgast grunnþekkingu og geta þannig tekist á við helstu kvilla sem kunna að gera vart við sig í amstri dagsins á aðgengilegan hátt.
Sjálfshjálparbækurnar sem nú þegar eru komnar út eru Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu og Meðganga og fæðing með hómópatíu.
Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu er frábær búbót fyrir allt fjölskyldufólk. Tekið er á rúmlega þrjátíu atriðum sem upp geta komið á uppvaxtarárum barna og hvernig má á auðveldan hátt takast á við einkenni þeirra heima við.
Meðal fjölda annarra kvilla er tekið á magakrömpum, eyrnabólgum, kvefi, hósta, hita, hálsbólgu, kossageit, meltingarkvillum, undirmigu, tanntöku, vörtum, lús og njálgi. Einnig er ítarlegur kafli um Bráðahjálp, sem kemur sér vel á ferðalögum og ef um minniháttar slys er að ræða.
Meðganga og fæðing með hómópatíu er ómissandi fyrir allar þær konur sem vilja taka meiri ábyrgð á eigin heilsu á mildan og áhrifaríkan hátt á meðgöngunni. Tekið er á mörgum af þeim kvillum sem kona getur fundið fyrir á meðgöngunni, í fæðingarferlinu sjálfu og fyrstu dagana eftir að hún hefur eignast barn.
Má til dæmis nefna morgunógleði, bjúg, meltingarójafnvægi, sinadrætti, bakverki, gyllinæð, fæðingarþunglyndi, brjóstabólgu, þvagteppu, ásamt fjölda annarra kvilla sem teknir eru fyrir. Það er val hverrar konu hvernig hún vill takast á við sína líðan á meðgöngunni.
Í seinni hluta beggja bókanna eru settar upp aðgengilegar samanburðartöflur sem auðvelda val á milli remedía eftir þeim einkennum sem eiga við í hverju tilfelli fyrir sig.
Þess má geta að hómópatía vinnur ávallt með einkenni og hvernig þau hafa áhrif á þann sem þau sýna, því geta báðar þessar bækur hentað öllum, óháð aldri eða kyni.
Ásamt því að gefa út bækur halda þær Guðný Ósk og Anna Birna úti vefsíðu, www.htveir.is, þar sem finna má ítarlegt efni um hómópatíu og annað heilsutengt efni, auk þess sem þær standa fyrir námskeiðum og kynningum um hómópatíu.
Það er ósk þeirra Guðnýjar Óskar og Önnu Birnu að með útgáfu bókanna haldi þessi aldagamla, milda náttúrumeðferð, sem hómópatían er, áfram að vaxa og dafna meðal íslendinga nútímans um ókomna framtíð.